Borðið hvalkjöt og bjargið heiminum

Hvalkjötsát er þáttur í umhverfisvænum lífsstíl að mati norskra hvalveiðimanna
Hvalkjötsát er þáttur í umhverfisvænum lífsstíl að mati norskra hvalveiðimanna Árvakur/Ómar

Norskir hvalveiðimenn hvetja nú fólk til að borða hvalkjöt í stað nautakjöts og hlífa þannig jörðinni og draga úr gróðurhúsaáhrifum. Ný rannsókn sýnir að ekkert kjöt krefst jafn lítillar losunar á koltvísýringi við framleiðslu og hvalkjöt.

Fréttavefur Berlingske Tidende segir frá því að ný rannsókn sýni að aðeins 1,9 kíló af koltvísýringi sé losað fyrir hvert kíló af hvalkjöti sem notað er til matar. Er það einkum eldsneytisnotkun hvalveiðibáta sem veldur losuninni.

Þegar kemur að öðru kjöti er ástandið hins vegar mun verra. 15,8 kíló af koltvísýringi eru losuð fyrir hvert kíló af nautakjöti sem framleitt er. 6,4 kíló fyrir hvert kíló af svínakjöti. 4,6 kíló af koltvísýringi kostar að framleiða eitt kíló af kjúklingakjöti, sem er meira en tvisvar sinnum meira en umhverfisáhrifin af því að koma einu kílói af hvalkjöti í maga neytenda.

Rune Froevik hjá Høge Nord Alliansen,  regnhlífarsamtökum norskra sjávarútvegsfyrirtækja, segir rannsóknina sýna að það besta sem hægt sé að gera fyrir umhverfið sé að borða hvalkjöt, ef miðað er við aðrar tegundir af kjöti.

Truls Gulowsem, talsmaður Grænfriðunga gefur lítið fyrir þessa niðurstöðu og segir mun mikilvægara að hvalastofnar lifi af, en hve miklum koltvísýringi sé fórnað við veiðarnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert