Ísraelar segjast ekki eiga friðarviðræður við Hamas

Blóðug átök áttu sér stað á Gasa í síðustu viku.
Blóðug átök áttu sér stað á Gasa í síðustu viku. Reuters

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísrael, neitar því að Ísraelar séu í vopnahlésviðræðum við palestínsku Hamas hreyfinguna en sagði Ísraela ekki hafa neina ástæðu til þess að gera árásir á Gasa ef eldflaugaárásum frá Gasasvæðinu væri hætt.

„Það er ekkert samkomulag, og engar samningaviðræður, hvorki beinar né óbeinar," sagði Olmert á blaðamannafundi.  Olmert sagði Ísraela hafa gert ótvíræðar kröfur til Hamas hreyfingarinnar um að stöðva eldflaugaárásir á Ísrael, sem ekki hafi verið fylltar, og ef gengist væri við þeirri kröfu yrði engin þörf á vopnahléi.

Ummæli Olmerts koma í kjölfar málamiðlunarviðleitni Egypta um að koma á vopnahléi á Gasasvæðinu eftir að blóðug átök áttu sér stað í síðustu viku. 

Olmert segir Ísrael ekki hafa beðið um aðstoð Egypta til þess að miðla málum og koma á vopnahléi við Hamas.  „Egyptaland gegnir engu hlutverki í samningaviðræðum við Hamas," sagði Olmert.

Ummæli Olmerts eru á skjön við yfirlýsingar Egypta um að þeir væru að vinna að vopnahléssamningi á milli Ísraela og Hamas hreyfingarinnar, með stuðningi frá Bandaríkjastjórn.  Í yfirlýsingu frá Hamas sagði einnig að Egyptar tækju þátt í því að miðla málum og hvetja til vopnahléssamnings.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert