Shannon Matthews fannst á lífi

Shannon Matthews fannst á lífi
Shannon Matthews fannst á lífi Reuters

Shannon Matthews, níu ára gömul stúlka sem leitað hefur verið að á Bretlandi undanfarnar þrjár vikur, fannst á lífi í dag í Batley Carr í Yorkshire. Að sögn breskra fjölmiðla var 39 ára gamall karlmaður handtekinn í íbúðinni, grunaður um mannrán.  

Shannon skilaði sér ekki heim eftir sundferð 19. febrúar sl. Móðir hennar, Karen, taldi að einhver sem þekkti stúlkuna hefði numið hana á brott.

Lögreglan braut sér leið inn í íbúð í Batley Carr í dag og sáust lögreglumenn bera stúlkuna út, að sögn íbúa á svæðinu.  Sjónarvottarnir sögðu einnig við fjölmiðla, að stúlkan hefði virst vera „mjög róleg“. Lögreglumenn sögðu að það væri allt í lagi með hana. 

Íbúi á svæðinu sagði að einn nágranni sinn hefði heyrt hávaða og séð lögregluna ryðjast inn í húsið. „Þegar hann gekk út sá hann að lögreglan var að brjóra sér leið þar inn. Einhver fyrir innan vildi ekki koma út þannig að lögreglan fór inn,“ sagði íbúinn.

Svo virðist vera að stúlkan hafi fundist í rúmi í íbúðinni. Áður höfðu borist fregnir um að stelpan hefði verið að fela sig undir rúmi heima hjá ömmu sinni og afa en þær virðast ekki hafa átt við rök að styðjast.

Lögreglan leitaði í yfir 200 heimilum og fékk yfir 300 símhringingar frá almenningi meðan á viðamikilli rannsókn stóð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert