80 létust í átökum í Tíbet

Talsmaður tíbetsku útlagastjórnarinnar á Indlandi sagði í dag, að fengist hefði staðfest að 80 manns hefðu látið lífið í átökum mótmælenda við kínverska herinn í Lhasa, höfuðborg Tíbets, í síðustu viku og að minnsta kosti 72 hefðu særst.

Thubten Samphel, talsmaður útlagastjórnar Dalai Lama, sagði að margir heimildarmenn í Tíbet hefðu talið að minnsta kosti 80 lík frá því átök mótmælenda og hermanna brutust út. Hann sagðist ekki vita hve margir hinna látnu hefðu verið óbreyttir borgarar.

Búddamunkar í Tíbet hófu mótmælaaðgerðir gegn hersetu Kínverja og mótmælin urðu ofbeldisfull undir lok vikunnar. Tíbetar grýttu kínverska íbúa borgarinnar og kveiktu í verslunum og bílum en kínverskir hermenn beittu vopnavaldi til að bæla óeirðirnar niður. Kínverskir fjölmiðlar sögðu að 10 manns hefðu látið lífið.

Hundruð vopnaðra her- og lögreglumanna voru á götum Lhasa í morgun og í gildi var útgöngubann. Að sögn sjónvarpsstöðvar í Hong Kong var um 200 herbílum ekið inn í borgina í morgun og voru 40-60 hermenn í herjum bíl. Myndir frá borginni sýna að göturnar eru að mestu auðar og aðeins brynvarin ökutæki eru þar á ferð.

Í hátölurum á götuhornum heyrast skipanir og slagorð. Þannig eru íbúar hvattir til að greina á milli vina og óvina og taka afstöðu gegn ofbeldi með stöðugleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert