Myrti nýfætt barn sitt

Fjórtán ára bandarísk stúlka, sem fæddi barn inni á salerni í skóla sínum í Baytown í Texas á miðvikudag, myrti barnið með því að reyna að sturta nýfæddu barninu niður um klósettið. Barnið grét einu sinni áður en það lést, samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í Texas.

Krufning hefur leitt í ljós að barnið, sem var drengur, var lifandi er hún fæddi það og var móðirin að fullu gengin með er hún fæddi piltinn.

Stúlkan var flutt á sjúkrahús eftir að í ljós kom að hún hafði fætt barn á klósetti skólans. Enginn vissi að hún ætti von á barni og var það ekki fyrr en önnur stúlka sem var á salerninu, er stúlkan fæddi barnið, leitaði eftir hjálp hjá hjúkrunarfræðingi skólans. Þegar hjúkrunarfræðingurinn og aðstoðarskólastjórinn komu á salernið reyndu þau að bjarga barninu en þrátt fyrir lífgunartilraunir tókst ekki að bjarga því.

Ekki er vitað hvort stúlkunni verði refsað fyrir athæfið þrátt fyrir að það liggi dauðarefsing við því að myrða hvítvoðung í Texas. Stúlkan er hins vegar of ung til þess að vera dæmd til dauða, að sögn lagaprófessors við Lagaskóla Suður-Texas.

Atvikið átti sér stað einungis þremur dögum eftir að önnur 14 ára stúlka fæddi andvana fóstur á salerni flugvélar er hún var á heimleið til Houston í Texas eftir skólaferðalag. Baytown er í 40 km fjarlægð frá Houston.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert