Hamas viðurkennir ekki Ísrael

Yfirlýsingu Jimmy Carters, fyrrum Bandaríkjaforseta, í morgun um að Hamas-samtökin kunni að viðurkenna tilverurétt Ísraels að uppfylltum skilyrðum, hefur verið misjafnlega tekið. Pólitískur leiðtogi Hamassamtakanna hefur borið þetta til baka og Bandaríkjastjórn og Ísraelsmenn hafa lýst efasemdum.

Carter átti um helgina tvo fundi með Khaled Meshaal, pólitískum leiðtoga Hamas, sem er í útlegð í Sýrlandi. Sagði Carter í dag, að í þessum viðræðum hefði komið fram, að Hamas kynni að viðurkenna Ísrael ef samkomulag næðist um sjálfstætt ríki Palestínu og Palestínumenn samþykktu það samkomulag í atkvæðagreiðslu.

Meshaal hélt hins vegar blaðamannafund í Damaskus síðdegis og sagði að Hamas muni ekki viðurkenna Ísrael og  halda fast við það, að 4,5 milljónir palestínskra flóttamanna eigi rétt á að snúa aftur til fyrrum heimkynna sinna. Sagði hann, að Hamas féllist á 10 ára vopnahlé ef Ísraelsmenn afhentu Palestínumönnum austurhluta Jerúsalem, Vesturbakkann og Gasasvæðið en öll þessi svæði hertóku Ísraelsmenn í Sex daga stríðinu svonefnda árið 1967.

Dana Perino, talsmaður Hvíta hússins, sagði í kvöld að þar á bæ tækju menn þessum yfirlýsingum af varfærni. Hún ítrekaði, að bandarísk stjórnvöld hefðu verið andvíg því, að Carter ætti fundi með leiðtogum Hamas og benti á að Hamassamtökin stæðu enn að ofbeldisverkum fyrir botni Miðjarðarhafs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert