Obama sofnaður á verðinum?

Barack Obama
Barack Obama AP

Fréttaskýrendur í Bandaríkjunum velta því nú fyrir sér hvort Barack Obama, sem berst fyrir því að verða forsetaefni bandarískra demókrata, hafi sofnað á verðinum og fagnað sigri of snemma í kjölfar velgengi sinnar að undanförnu.

Obama þykir hafa látið eins og prófkjör sem fram fór í Vestur Virginíu í gær kæmi honum ekki við enda vann keppinautur hans Hillary Rodham Clinton stórsigur í prófkjörinu.

Með sigrinum tryggði Clinton sér stuðning 28 almennra kjörmanna en Obama tryggði sér hins vegar stuðning 30 ofurkjörmanna í síðustu viku.

Hafa fréttaskýrendur bent á að kjósendurnir sem höfnuðu Obama í gær séu hvítt sveitafólk með lágar tekjur og litla menntun og að skilaboðin sem Obama hafi sent með skeytingarleysi sínu tengist ekki einungis þeim hópi í Vestur- Virginíu í hugum fólks heldur einnig svipuðum hópum kjósenda í öðrum ríkjum sem Obama þarf að vinna til að halda áfram á sigurbraut.

Það vakti athygli að Obama hélt hvorki ræðu á kosninganótt né lét hann sjá á kosningavökum. Clinton gerði hins vegar mikið úr sigri sínum og segja ráðgjafar hennar hana ætla að reyna að nýta sigur sinn í þar til að að sannfæra þá ofurkjörmenn sem enn hafi ekki gert upp hug sinn um að hún sé sterkara forsetaefni en Obama og njóti stuðnings mun breiðari hópa en hann.

„Það er staðreynd að enginn demókrati hefur komist í Hvíta húsið frá árinu 1916 án þess að sigra fyrst í Vestur Virginíu,” sagði hún í sigurræðu sinni í nótt. „Mergur málsins er sá að forsetakosningar vinnast í ríkjum sem flakka á milli flokkanna og það er ég sem er að sigra í þeim ríkjum.”

Obama er nú í Michigan þar sem hann á á brattann að sækja m.a. vegna þess að hann hefur fram til þessa lagt litla áherslu á að kynna sig þar. Þá er talið að Clinton muni sigra í prófkjöri í Kentucky í næstu viku en Obama þykir líklegri sigurvegari í Oregon, þar sem kosið verður sama dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert