Bandaríkjamenn sakaðir um að rjúfa lofthelgi Venesúela

Yfirvöld í Venesúela saka Bandaríkjamenn um að hafa rofið lofthelgi landsins. Gustavo Rangel, varnarmálaráðherra, segir að bandarísk herflugvél hefði flogið í leyfisleysi yfir eyjunni Orchila sl. laugardag.

Rangel sagði að sendiherra Bandaríkjanna yrði krafinn svara mjög fljótlega.  Hugo Chavez, forseti Venesúela, hefur í gegnum tíðina ásakað bandarísku ríkisstjórnina um að ýta undir óstöðugleika í landinu.  

Að sögn varnarmálaráðherrans flaug bandaríska flugvélin yfir gervalla eyjuna og yfir inn í lofthelgi annarrar eyju áður en snúið var við. „Við skipuðum flugmanninum að gera grein fyrir sér,“ sagði hann. Að hans mati er þetta enn eitt dæmi um ögrun af hálfu Bandaríkjamanna. 

Robin Holzhauer, talsmaður sendiráðs Bandaríkjanna í Venesúela, sagði að verið væri að ganga úr skugga um hvort flugvél hefði rofið lofthelgi landsins, að því er fram kemur á fréttavef BBC.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert