Bandaríkjamenn draga úr akstri

Gulir leigubílar á götum New York borgar.
Gulir leigubílar á götum New York borgar. Reuters

Það þykir vera tímanna tákn að Bandaríkjamenn séu farnir að draga úr akstri, en þar hefur eldsneytisverð hækkað gríðarlega sem og víðast hvar annarsstaðar í heiminum. Bandaríkjamenn óku minna í mars á þessu ári samanborið við síðasta ár, eða sem nemur 4,3%.  Þetta hefur ekki gerst í tæp 30 ár.

Það var á tímum olíukreppunnar á áttunda áratugnum sem Bandaríkjamenn drógu síðast úr akstri á milli ára. Í tölunum eru mældar mílur sem eknar eru á þjóðvegum landsins, því er fram kemur á fréttavef Reuters.

Samkvæmt tölum frá bandaríska samgönguráðuneytinu minnkaði aksturinn sem nemur 11 milljörðum mílna á milli mars 2008 og mars 2007. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 1979 sem akstur á þjóðvegum landsins minnkar á milli ára.

Aldrei hafa tölur yfir akstur lækkað jafn mikið á milli ára frá því mælingar hófust árið 1942. Þá er sama um hvaða mánuð árs er að ræða.

Nú kostar gallon af bensíni í Bandaríkjunum 3,79 dali. Það hefur hækkað um 57 sent á milli ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert