Vægar tekið á fæðingu barna í Kína

Fjöldi barna er munaðarlaus eftir jarðskjálftann í Kína.
Fjöldi barna er munaðarlaus eftir jarðskjálftann í Kína. Reuters

Stjórnvöld í Kína hafa ákveðið að heimila fólki að eignast fleiri en eitt barn í kjölfar jarðskjálftans sem reið yfir Sichuan-hérað fyrir tveimur vikum. Verður foreldrum sem annað hvort misstu börn sín eða  slösuðust í skjálftanum veitt heimild til þess að eignast annað barn.

Fjöldi barna lést í jarðskjálftanum og í flestum tilvikum var um einkabörn að ræða þar sem stjórnvöld í Kína settu lög um það á áttunda áratug síðustu aldar að takmarka barneignir við eitt barn með fáeinum undantekningum. Var þetta gert til þess að reyna að draga úr fólksfjölgun í landinu og tryggja börnum betri menntun og heilbrigðiskerfi. Stjórnvöld segja að með þessu hafi tekist að koma í veg fyrir fæðingu 400 milljón nýbura. Andstæðingar laganna segja á móti að lögin hafi valdið því að ólöglegar fóstureyðingar hafi aukist og ójafnvægi milli  fjölda drengja og stúlkna í landinu.

Pör sem hafa eignast fleiri en eitt barn hefur verið refsað með sektum en samkvæmt tilkynningu frá stjórnvöldum nú kemur fram að ekki þurfi að greiða sekt fyrir börn sem fædd eru utan „kvóta"  og létust í skjálftanum. Hins vegar verði sektir sem búið var að greiða ekki endurgreiddar. Ef foreldrar misstu barn í skjálftanum sem er fætt innan „kvótans" en eigi eftirlifandi barn sem er fætt utan „kvóta", þá geti foreldrarnir skráð barnið sem „löglegt" barn með tilheyrandi réttindum, svo sem ókeypis skólagöngu.

Margir Kínverjar hafa lýst yfir áhuga á að ættleiða munaðarlaus börn eftir skjálftann og verða samkvæmt tilkynningu stjórnvalda engar kvaðir settar á hve mörg börn hver fjölskylda má ættleiða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert