Reyndu að ræna autt bankaútibú

Grímuklæddir ræningjar létu til skarar skríða gegn Westra Wermlands Sparbankí Årjäng í Vermalandi í Svíþjóð í morgun. Þeir gripu hins vegar í tómt en útibúið var nýlega flutt í annað húsnæði.

Að sögn fréttavefjar héraðsfréttablaðsins NWT ruddust ræningjarnir inn í bygginguna en fundu aðeins auðar skrifstofur. Sjónarvottur segir, að ræningjarnir hafi brotið rúðu og notað vélsög til að komast inn í bygginguna.

Þegar ræningjarnir áttuðu sig á því hvers kyns var hlupu þeir út og óku að húsnæði útibús Nordea, sem er skammt frá. Á leiðinni óku þeir fram hjá nýju húsnæði Westra Wermlands Sparbank.

Þrír ræningjar sáust við útibú Nordea og einn þeirra fór inn í afgreiðsluna. Hinir tveir stóðu fyrir utan og skutu af byssum upp í loftið. Ekki er vitað til að ræningjarnir hafi haft fé upp úr krafsinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert