Vægur dómur yfir hópnauðgurum vakti mikla reiði

Áfrýjunarréttur í Ástralíu hnekkti í dag úrskurði dómara undirréttar frá í fyrra um að láta níu manns sem nauðguðu tíu ára stúlku ganga lausa og dæmdi þá í fangelsi. Nauðgararnir voru á aldrinum 13 til 25 ára er afbrotið var framið í afskekktri frumbyggjabyggð. Þeir játuðu verknaðinn.

Hin væga refsing vakti gífurlega reiði um gervalla Ástralíu og miklar deilur um réttarfar í byggðum frumbyggja.

Héraðsdómarinn Sarah Bradley dæmdi í fyrra nauðgarana í skilorðsbundið fangelsi, og þeir sem voru undir lögaldri héldu hreinu sakavottorði.

Yfirdómari við áfrýjunarréttinn, Paul de Jersey, sagði í dag að Bradley hefðu orðið á alvarleg mistök er hún felldi dómana í fyrra og hefði virt dómafordæmi að vettugi. 

Þeir nauðgaranna sem eru fullorðnir voru í dag dæmdir í sex ára óskilorðsbundið fangelsi, og tveir á táningsaldri í eins og hálfs árs og eins árs fangelsi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert