Dæmdur til dauða fyrir guðlast

Dómari í Pakistan dæmdi í dag múslíma þar í landi til dauða fyrir níð um Múhameð spámann. Maðurinn var einnig dæmdur í lífstíðarfangelsi og til greiðslu fimm milljóna rúpía fyrir að hafa svívirt blaðsíður úr helgiriti múslíma, Kóraninum.

Maðurinn, Shafeeq Latif, var ákærður fyrir að hafa farið móðgandi orðum um spámanninn. Réttarhöld í málinu fóru fram í borginni Sialkot, en Latif var handtekinn í þorpi skammt utan við borgina.

Samkvæmt pakistönskum lögum um guðlast á hver sá sem móðgar Múhameð yfir höfði sér dauðadóm. Fjöldi manns, þ.á m. múslíma og kristnir, sem eru í minnihluta í Pakistan, bíða dóms á grundvelli þessara laga, sem mannréttindasamtök hafa fordæmt og krafist að verði afnumin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert