Íranar segja árás Ísraela óhugsandi

Mynd af byggingu í Natanz þar sem hægt er að …
Mynd af byggingu í Natanz þar sem hægt er að auðga úran Reuters

Írönsk stjórnvöld segjast telja óhugsandi að Ísraelar geri árás á kjarnorkuver landsins. Talsmaður íranskra stjórnvalda Gholam Hoseyn Elham, segir að það sé ekkert annað en ósvífni að láta sér detta slíkt í hug. Elham lét þessi orð falla í kjölfar frétta í bandarískum fjölmiðlum um að Ísraelsher hafi í vikunni æft slíka loftárás.

Íranar ítreka að kjarnorkuáætlun þeirra sé friðsamleg og ekki sé ætlunin að auðga úran til framleiðslu kjarnorkuvopna.

Yfirmaður  Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, IAEA, Mohammed ElBaradei, segir að slík árás á kjarnorkuver í Íran, sé glórulaus og geti þýtt að Íranir hefji framleiðslu kjarnorkuvopna og stríð brjótist út í þessum heimshluta með skelfilegum afleiðingum. ElBaradei segist ekki trúa því að það stafi hætta af Írönum miðað við stöðu mála í ríkinu hvað varðar kjarnorku.

Í viðtali við  Al Arabiya sjónvarpsstöðina sagði ElBaradei að ef árás yrði gerð á Íran þá yrði hann að segja af sér sem yfirmaður IAEA.

Bandaríska dagblaðið New York Times greindi frá því í gær eftir heimildum úr varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna að ríflega eitt hundrað orrustuþotur Ísraelshers hafi æft mögulega árás á Íran. Meðal annars með því að fljúga yfir 1.400 km, líkt og flugleiðin er milli Ísraels og helstu úranvinnslu Írans í Natanz.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert