Tsvangirai hættur

Forsetaframbjóðandi stjórnarandstöðunnar í Simbabve, Morgan Tsvangirai, tilkynnti á blaðamannafundi í dag í höfuðborg landsins, Harare, að hann væri hættur við framboðið. Sagði Tsvangirai að hann hefði ákveðið að hætta við framboðið vegna ofbeldisöldunnar í landinu og að ekki væri möguleiki á að kosningarnar yrðu trúverðugar.

„Við getum ekki beðið fólk um að kjósa þann 27. júní ef atkvæðið kostar það lífið. Við munum ekki lengur taka þátt í þessu ofbeldi sem hefur fylgt kosningunum," sagði  Tsvangirai. „Mugabe hefur boðað til stríðs og við viljum ekki taka þátt í því stríði," bætti hann við.

Tsvangirai fékk flest atkvæði í fyrri umferð forsetakosninganna sem fram fóru í Simbabve þann 29. mars sl. en fékk ekki hreinan meirihluta og átti því að kjósa á milli hans og  Roberts Mugabe, sem hefur verið forseti Simbabve frá því landið fékk sjálfstæði frá Bretum. Mugabe er 84 ára gamall. 

Morgan Tsvangirai
Morgan Tsvangirai HOWARD BURDITT
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert