Vilja setja hömlur á bloggara

Mikil fjölgun hefur orðið á
Mikil fjölgun hefur orðið á "bloggurum" hér á landi undanfarin ár. mbl.is/Þorvaldur

Lagt er til að ákveðnar hömlur verði settar á tjáningarfrelsi bloggara í nýrri skýrslu menningarnefndar Evrópuþingsins sem lögð verður fyrir þingið í september. Þetta kemur fram á sænska fréttavefnum SvD.

Í skýrslunni sem skrifuð er af hinni eistnesku Marianne Mikko, segir m.a. að nauðsynlegt sé að setja lög um ábyrgð bloggara á því sem þeir birta á bloggsíðum sínum m.a. því að gerðar verði kröfur um að tilgreindir séu ábyrgðarmenn bloggsíðna. Þá er þar lagt til að bloggurum verði gert skylt að skilgreina umfjöllunarefni sín og að höfundarréttarlög verði sett á texta, myndir og myndbönd einstaklinga sem birt er á blogginu.

Mikko hefur ekki viljað tjá sig nánar um málið við fjölmiðla en á heimasíðu hennar segir að hætta sé á því að bloggarar óhreinki netheima.  „Það er þegar of mikið af rusli á netinu, rangar og skaðlegar upplýsingar," segir hún þar. „Við þurfum gæðastimpla og upplýsingar um það hver skrifar hvað og hvers vegna."

„Það er margt mjög óljóst í skýrslunni og þar stendur ekkert um það hvernig framkvæma eigi hlutina," segir sænski Evrópuþingmaðurinn Christopher Fjellner. „Og það gerir málið jafnvel enn verra. Það að lagt sé til að Evrópuþingið samþykki eitthvað sem ekki er í raun hægt að framkvæma."  

Fjellner segist ætla að berjast gegn öllum tilburðum til lagasetningar á grundvelli skýrslunnar enda sé hún glöggt vitni um þá takmarkalausu heimsku sem finna megi meðal þeirra sem fari með ákvarðanavaldið.

Hugmyndir Mikko hafa einnig sætt harðri gagnrýni mannréttindafrömuða sem segja það aðför að tjáningarfrelsi einstaklingsins að krefjast þess að bloggarar skrái sig. „Með þessu yrði komið í veg fyrir að fólk gæti skrifað nafnlaust um stjórnmál og veitt upplýsingar um hluti án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar," segir Henrik Alexandersson, samfélagsrýnir og bloggari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert