Loftbrúarinnar minnst

Á flugvellinum í Wiesbaden í dag.
Á flugvellinum í Wiesbaden í dag. AP

Um tíu þúsund manns komu saman í Wiesbaden í Þýskalandi í dag þar sem haldin var hátíð í tilefni af því að 60 ár eru síðan lofbrúin til Berlínar hófst, en hún er enn einhver umfangsmesta neyðaraðstoð sem um getur í sögunni.

Yfirmaður bandarísku herstöðvarinnar í Wiesbaden sagði á hátíðinni að skipulagning og samstarf þjóðanna sem héldu loftbrúnni uppi hafi lagt grunninn að stofnun Atlantshafsbandalagsins og nánara samstarfi.

Með loftbrúnni var fluttur matur og aðrar nauðsynjar til um tveggja milljóna íbúa Vestur-Berlínar, sem var innilokuð í Austur-Þýskalandi, sem var yfirráðasvæði Rússa í kjölfar síðari heimsstyrjaldar. Hefur loftbrúnni verið lýst sem fyrstu „orrustu“ kalda stríðsins.

Frá 26. júní 1948 og þar til í maí árið eftir voru alls fluttar um 23 milljónir tonna af birgðum til Vestur-Berlínar í um 278.000 flugferðum, sem flestar voru farnar frá herflugvelli Bandaríkjamanna í Wiesbaden og vellinum sem nú er alþjóðaflugvöllurinn í Frankfurt.

Flugmennirnir sem tóku þátt í loftbrúnni voru m.a. frá Ástralíu, Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada, Nýja-Sjálandi og Suður-Afríku. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert