Reynt að sporna við offitu barna

Evrópusambandið stefnir að því að verja 90 milljónum evra, tæplega 11 milljörðum króna, á ári í að bjóða upp á ávexti og grænmeti í skólum í ríkjum sambandsins. Verða ávextirnir og grænmetið ókeypis en þetta er liður í aðgerðum ESB til að sporna við offitu meðal barna.

Talið er að um 22 milljónir barna í ríkjum ESB séu of þung vegna rangs mataræðis. Fimm milljónir þeirra eru skilgreind sem offitusjúklingar og er talið að þeim fjölgi um 400 þúsund á hverju ári.

Vandamálið blasir við

Hollt fæði skiptir sköpum þegar kemur að baráttunni við offitu og að koma í veg fyrir hjarta- og æðarsjúkdóma og aðra sjúkdóma sem fylgja offitu síðar á lífsleiðinni.

„Þú þarft einungis að ganga um helstu götur í Evrópu til þess að sjá vandamálið sem við stöndum frammi fyrir, of þung börn. Gerum eitthvað í þessu," sagði Mariann Fischer Boel, yfirmaður landbúnaðarmála hjá ESB þegar hún kynnti áætlunina

Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) mælir með því að hver manneskja borði um 400 grömm af ávöxtum og grænmeti daglega. Fæstir Evrópubúa uppfylla það markmið, segir í skýrslu ESB.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert