Páfi ætlar að biðjast fyrirgefningar á hneykslismáli

Benedikt páfi veifar til fréttamanna er hann lagði af stað …
Benedikt páfi veifar til fréttamanna er hann lagði af stað í ferðina á flugvelli í Róm. Reuters

Benedikt páfi segir að hann muni biðjast fyrirgefningar fyrir hönd kirkjunnar á áratugalangri kynferðislegri misnotkun ástralskra presta á börnum. Benedikt, sem ferðast nú til Ástralíu, segir að  barnagirnd eiga enga samleið með því að vera prestur.

Fórnarlömb presta hafa sagt að þau muni efna til mótmæla á meðan heimsókn páfa stendur yfir.

Þá er búist við því að Benedikt páfi muni ræða loftlagsmál í ferðinni. Hann hefur sagt við blaðamenn að fólk verði að breyta lífsvenjum sínum á siðferðislegan hátt.

Páfinn fer fyrir hátíð ungra kaþólikka, sem nefnist World Youth Day. Þar verða loftlagsmál í brennidepli. Talið er að hátíðin muni laða að um 200.000 unga kaþólikka til Sydney.

Lögreglurannsókn á meintum kynferðisglæpum hefur hins vegar varpað skugga á hátíðina, sem stendur yfir í sex daga.

Kardinálinn George Pell, leiðtogi ástralskra kaþólikka, hefur verið gagnrýndir fyrir það hvernig hann tók á máli prests árið 1982, sem sakaður er um að hafa misnotað börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert