Hafði áhuga á heilun og hugleiðslu

Radovan Karadzic, fyrrum leiðtogi Bosníu Serba, sem var handtekinn í gær eftir að hafa verið eftirlýstur í 13 ár, starfaði við óhefðbundnar lækningar í úthverfi Belgrad um árabil.  Hann skrifaði m.a greinar um orkumeðferðir og hugleiðsluaðferðir fyrir heilsutímarit. 

Í október sótti Karadzic, sem var þekktur undir nafninu Dragan Dabic, ráðstefnu sem skipulögð var af tímaritinu Heilbrigt líf.  Ritstjóri tímaritsins segir Karadzic hafa kynnt sig sem taugasálfræðing og að hann haft áhuga á heilun, og orkumeðferðum.  Kona sem vann á tímaritinu segir Karadzic hafa verið mjög trúaðan mann og að hann hafi m.a fléttað hár sitt til þess að geta tekið á móti mismunandi orku.  Karadzic skrifaði fyrir tímaritið og hélt fyrirlestra þar sem hann bar saman hefðbundnar aðferðir á hugleiðslu við hugleiðslu stundaða af munkum í rétttrúnaðarklaustrum.   

Reuters fréttastofan hefur birt myndskeið af ráðstefnu Heilbrigðs lífs  sem haldin var í janúar.  Þar sést Karadzic í gervi sínu með sítt hvítt skegg og fléttað hár.  Ritstjóri ritsins segist ekki hafa trúað því þegar hann heyrði að Dabic væri í raun fyrrum leiðtogi Bosníu Serba, sem hefur farið huldu höfði í mörg ár.

Karadzic er 63 ára og menntaður geðlæknir.  Hann var handtekinn í Serbíu í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert