Obama heitir Ísrael stuðningi

Ehud Barak heilsar hér Barack Obama í Jerúsalem í dag.
Ehud Barak heilsar hér Barack Obama í Jerúsalem í dag. Reuters

Barack Obama, forsetaefni demókrata, sem kom til Jerúsalem í Ísrael í dag, heitir Ísraelum stuðningi. Hann segir að ef hann verði kjörinn næsti Bandaríkjaforseti þá muni hann vinna að því að blása nýju lífi í friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs.

Obama, sem hefur verið á ferðalagi til að styrkja stöðu sína erlendis, fundaði með Ehud Barak, varnarmálaráðherra Ísraels. Síðar í dag mun hann funda með Shimon Peres, forseta Ísraels, Tzipi Livni utanríkisráðherra og Ehud Olmer forsætisráðaherra, sem gæti verið neyddur til að láta af embætti vegna rannsóknar á meintum spillingarmálum ráðherrans.

Obama, sem reynir nú að sannfæra Ísraela, og gyðinga í Bandaríkjunum, um að hann sé reiðubúinn til að styðja Ísrael, segir mikilvægt að hin sögulegu og sérstöku tengsl Bandaríkjanna og Ísraels verði styrkt enn frekar.

Obama olli palestínskum leiðtogum áhyggjum í síðasta mánuði þegar hann sagði að Jerúsalem hætti að vera alfarið höfuðborg Ísraels. Palestínumenn vilja að Austur-Jerúsalem, sem Ísraelar hertóku árið 1967, verði framtíðar höfuðborg Palestínu. Obama sagði síðar að hann hefði orðað hlutina vitlaust þegar hann lét ummælin falla.

Obama mun einnig heimsækja Vesturbakkann og funda með Mahmoud Abbas og Salam Fayyad, forsætisráðherra heimstjórnar Palestínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert