Karzai sakaður um að hlífa fíkniefnaframleiðendum

Hamid Karzai, forseti Afganistans.
Hamid Karzai, forseti Afganistans. Reuters

Bandarískur sendimaður, sem starfaði í tvö ár í Afganistan og stýrði þar aðgerðum til að reyna að draga úr ópíumframleiðslu, segir að Hamid Karzai, forseti landsins, hafi haldið verndarhendi yfir fíkniefnaframleiðendum og blekkt Bandaríkjamenn og önnur vesturlönd.

„Karzai hefur spilað með okkur," segir Thomas Schweich í grein sem hann skrifar í tímarit blaðsins New York Times. „Hann spilaði á okkur eins og fiðlu.  Bandaríkin myndu verja milljörðum dala í uppbyggingu innviða landsins, Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra myndu berjast við talibana, vinir Karzais gætu auðgast á fíkniefnasölu, hann gæti kennt Vesturveldunum um vandamálin í landinu; og árið 2009 yrði hann kosinn forseti að nýju."

Schweich segir að Karzai hafi hlíft valdamiklum fíkniefnaframleiðendum af pólitískum ástæðum og þolað ákveðna spillingu innan raða ríkisstjórnarinnar til að halda völdum. Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir Schweich, að fyrrverandi ríkissaksóknari Afganistans, sem nú hefur verið vikið úr embætti, hafi sýnt sér lista með 20 nöfnum manna, sem forsetinn bannaði að yrðu sóttir til saka. Þá ítrekar hann fullyrðingar um að Ahmed Wali Karzai,  bróðir forsetans, stundi fíkniefnaviðskipti í Kandahar. 

Karzai neitar þessum ásökunum og segir að ríkisstjórn sín hafi náð árangri í að draga úr eiturlyfjaframleiðslu. Þannig hafi ópíumrækt verið útrýmt eða verulega úr henni dregið í rúmlega helmingi héraðanna í Afganistan.

Schweich segir hins vegar að slíkar fullyrðingar séu ekki í neinu samræmi við raunveruleikann. Þótt valmúarækt sé nú aðallega í 5-6 héröðum séu valmúi ræktaður þar á 200 þúsund hekturum, sem sé stærsta fíkniefnauppskera í sögunni. 

Schweich sakar í greininni einnig bandaríska varnarmálaráðuneytið og herforingja innan NATO um að koma í veg fyrir tilraunir til að eyðileggja valmúauppskeruna. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert