Rosemarie Fritzl rekin út

Lögreglumenn við hús Fritzl hjónanna Ybbsstraße í Amstetten.
Lögreglumenn við hús Fritzl hjónanna Ybbsstraße í Amstetten. Reuters

Rosemarie Fritzl, eiginkona Josef Fritzl sem hélt dóttur sinni fanginni í jarðhýsi í 24 ár, er nú flutt út af sjúkrahúsinu þar sem dóttir hennar Elisabeth dvelur ásamt sex börnum sem hún fæddi föður sínum. Samkvæmt heimildum austurrískra fjölmiðla bað Elisabeth hana um að yfirgefa sjúkrahúsið vegna sífelldra árekstra þeirra á milli. Þetta kemur fram á fréttavef Berlingske Tidende.

Mun það sérstaklega hafa farið fyrir brjóstið á Elisabeth að þrjú af börnum hennar, sem ólust upp hjá Rosemarie og Josef, hafi kallað ömmu sína mömmu.

Rosemarie mun nú halda til í leiguíbúð í nágrenni sjúkrahússins en hún getur ekki flutt aftur inn á heimili sitt þar sem lögregla hefur lokað húsi hjónanna við Ybbsstraße í Amstetten. Hún fékk þó leyfi til að fara þangað um síðustu helgi og sækja bæði húsgögn og persónulega hluti.

Við það tækifæri mun hún hafa sagt nágrönnum sínum að henni liði vel.

Austurríska tímaritið OE24 hefur eftir ónafngreindum heimildarmanni að Rosemarie ætli að skilja við eiginmann sinn og hafi þegar tekið fyrstu skrefin í þá átt. Einnig mun hún ætla sér að taka upp fjölskyldunafn föður síns að nýju.

Staðhæft er í austurrískum fjölmiðlum að rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að Fritzl hafi nauðgað systur Rosemarie auk þess sem hann nauðgaði dóttur sinni ítrekað á þeim tíma sem hann hélt henni fanginni.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert