Dæmdur ETA-maður látinn laus á Spáni

Einn illræmdasti liðsmaður ETA, samtaka aðskilnaðarsinnaðra Baska, var látinn laus úr fangelsi á Spáni í morgun eftir að hafa setið í 21 ár í fangelsi fyrir að myrða 25 manns. Mikil reiði ríkir meðal almennings á Spáni vegna þessa.

Maðurinn heitir José Ignacio de Juana Chaos og er 52 ára. Hann var dæmdur í yfir 3000 ára fangelsi árið 1987 en samkvæmt lögum, sem þá voru í gildi, var hámarksfangelsisvist 30 ár. Vegna góðrar hegðunar í fangelsinu hefði Chaos átt að geta fengið reynslulausn árið 2004 en var þá dæmdur fyrir hótanir, sem birtust í blaðagreinum eftir hann.

José Luis Rodriguez Zapatero, forsætisráðherra, sagðist í vikunni fyrirlíta Chaos en ríkisstjórnin yrði að virða lög landsins.

Á sjónvarpsmyndum sást Juana Chaos ganga út úr fangelsi í  Aranjuez, skammt frá Madríd, ásamt eiginkonu sinni og tveimur lögmönnum. Talið er að ferð þeirra hafi verið heitið til San Sebastian á Norður-Spáni. Þar hafa Juana Chaos og kona hans keypt hús í sama hverfi og ættingjar margra fórnarlamba ETA búa. 

Juana Chaos tók þátt í árásum ETA, þar á meðal sprengjuárás í Madríd árið 1986 þar sem 12 lögreglumenn létu lífið. Hann hefur nokkrum sinnum farið í hungurverkfall í fangelsinu þar sem hann taldi sig sæta ólöglegri meðferð.

Talið er að ETA beri ábyrgð á dauða um 800 manna frá því samtökin hófu fyrir réttum fjórum áratugum vopnaða baráttu fyrir sjálfstæðu ríki Baska á norðurhluta Spánar og suðvesturhluta Frakklands.

José Ignacio de Juana Chaos gengur út í bíl ásamt …
José Ignacio de Juana Chaos gengur út í bíl ásamt Irati Aranzabal, eiginkonu sinni, eftir að hann var látinn laus úr Aranjuezfangelsinu skammt frá Madrid. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert