Mega haldleggja fartölvur

Reuters

Bandarískir alríkislögreglumenn hafa heimild til að leggja hald á fartölvur og önnur rafmagnstæki ferðamanna, og þurfa aldrei að skila þeim, samkvæmt gögnum frá bandaríska heimavarnaráðuneytinu, sem birt voru í síðasta mánuði. Svo virðist sem þessar reglur hafi verið í gildi í nokkurn tíma, en fyrst núna sem gert er uppskátt um þær.

Blaðið Washington Post greindi frá þessu á föstudaginn. Segir það, að lögreglumenn megi haldleggja tölvur, farsíma og fleira slíkt, jafnvel þótt ekki sé grunur um að eigandinn hafi eitthvað óhreint í pokahorninu.

Lögreglunni er síðan heimilt að deila gögnum, sem í þessum tækjum kunna að vera, með öðrum stofnunum.

Embættismenn í ráðuneytinu segja að þessar reglur eigi við um alla sem koma inn í landið, þ. á m. bandaríska ríkisborgara, og séu nauðsynlegar til að sporna við hryðjuverkastarfsemi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert