Christiane F. enn í eiturlyfjavanda

Christiane F, ein af krökkunum sem stunduðu mikla eiturlyfjanotkun á Zoo lestarstöðinni í Berlín í sannsögulegri bók, Dýragarðsbörnin, á að sögn Berlingske Tidende, enn við eiturlyfjavanda að stríða. 

Christiane er 46 ára gömul í dag og hefur nú misst forræði yfir 12 ára gömlum syni sínum.  Yfirvöld í Potsdam-Mittelmark í Þýskalandi staðfestu í dag að sonur Christiane hafi verið tekinn frá móður sinni, sem á við geðræn vandamál að stríða vegna eiturlyfjanotkunar.  Talsmaður barnaverndaryfirvalda sagði að Christiane gæti ekki lengur annast uppeldi sonar síns.

Pilturinn er nú í umsjá yfirvalda en athugað er hvort amma hans geti tekið við forræði hans.  

Bókin um Dýragarðsbörnin var skrifuð árið 1978 af tveim blaðamönnum þýska tímaritsins Stern.  Bókin varð fljótt metsölubók og árið 1981 var gerð kvikmynd um sögu Christiane, sem fyrst notaði heróín 13 ára gömul. 

Á vef Berlingske Tidende kemur fram að í sumum skólum í Þýskalandi og í Danmörku hafi verið skylda að lesa bókina og sagan notuð til þess að vara unglinga við eiturlyfjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert