Rússar nota klasasprengjur

Horft út á aðaltorgið í Gori út um búðarglugga.
Horft út á aðaltorgið í Gori út um búðarglugga. Reuters

Samtökin Human Rights Watch segja að rússneskar herflugvélar hafi notað klasasprengjur gegn óbreyttum borgurum í Georgíu og hafi þau sannanir fyrir því.

Samtökin hafa hvatt Rússa til þess að hætta að nota sprengjurnar en rúmlega hundrað þjóðir hafa nú þegar sett þær á bannlista.

Í skýrslu sem samtökin birta í morgun segir að rússneskar herflugvélar hafi varpað klasasprengjum og liggi ellefu borgarar í valnum vegna þeirra í borgunum Gori og Ruisi. Tugir hafa slasast.

Klasasprengjur innihalda tugi eða hundruði lítilla sprengja sem dreifast yfir stór svæði og eru sérstaklega hættuleg óbreyttum borgurum. Margar sprengjanna springa ekki strax í byrjun og verða því að jarðsprengjum sem liggja á jörðu og skapa borgurum hættu mánuðum eða jafnvel árum saman.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands neitaði ásökununum í viðtali við fréttastofuna ITAR-Tass og sagði að samtökin byggðu þetta á viðtölum við hlutdræg vitni.

Skýrslan á síðu Human Rights Watch.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert