Yfirgefið barn fannst öruggt í umsjá tíkur

Nýfætt barn sem var yfirgefið úti undir berum himni fannst í öruggu skjóli í hundakofa, hjá tík sem þar var með hvolpa sína. Þetta gerðist í borginni La Plata í Argentínu, að því er þarlendir fjölmiðlar greina frá í dag.

Móðir barnsins er fjórtán ára. Lögreglan í La Plata hefur nú haft uppi á henni. Hún eignaðist barnið utandyra í fyrrinótt, en kalt er á nóttunni þar sem nú er vetur í Argentínu. La Plata er um 60 km suður af Buenos Aires.

Ekki liggur ljóst fyrir hvort stúlkan kom barninu fyrir hjá tíkinni, eða hvort tíkin fann það og fór með það til hvolpanna sinna.

Það var bóndi skammt utan við borgina sem fann barnið hjá tíkinni sinni í gær. Hann hafði samband við lögregluna, sem kom barninu undir læknishendur. Að sögn lækna var barnið aðeins nokkurra klukkustunda gamalt þegar það fannst. Því heilsast vel.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert