Dánartíðni í ESB fram úr fæðingartíðni 2015

Reuters

Búist er við að dánartíðni í Evrópusambandsríkjunum verði orðin hærri en fæðingartíðnin 2015, og fólksfjölgun eftir það byggjast eingöngu á innflytjendum, samkvæmt skýrslu sem ESB birtir í dag. Þar kemur fram að meðalaldur Evrópubúa muni hækka hratt næstu áratugina.

Fram til 2035 mun íbúafjöldinn í ESB vaxa úr 495 milljónum, sem hann er í dag, í 521 milljón 2035. Til lengri tíma litið mun íbúum sambandsríkjanna aftur á móti fækka í 506 milljónir árið 2060, að því er evrópska hagstofan, Eurostat, spáir.

Ennfremur segir, að fjöldi þeirra sem eru áttræðir eða eldri muni næstum því þrefaldast fram til 2060, og verða þá 61 milljón, en nú er hann 22 milljónir.

Evrópskir embættismenn hafa ítrekað bent stjórnvöldum aðildarríkjanna á að þær verði að búa betur í haginn fyrir þessa sprengingu, því að hún þýði að 2060 verði tveir vinnandi menn á hvern eftirlaunaþega, en nú er það hlutfall fjórir á móti einum.

Eurostat segir ennfremur að árið 2060 verði Bretland orðið fjölmennasta ESB-ríkið, komið fram úr Þýskalandi og Frakklandi, með 77 milljónir íbúa, en íbúum Þýskalands muni fækka í 71 milljón; Frökkum fjölga í 72 milljónir, Ítölum í 59 milljónir og Spánverjum í 52.

Í ýmsum Austur-Evrópuríkjum er spáð mikilli fólksfækkun: 28% í Búlgaríu, 26% í Lettlandi, 24% í Litháen, 21% í Rúmeníu og 18% í Póllandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert