McCain hrósar Obama

Allt er til reiðu fyrir ávarp Obamas á landsþinginu í …
Allt er til reiðu fyrir ávarp Obamas á landsþinginu í Denver. AP

Í sjónvarpsauglýsingu sem sýnd verður í Bandaríkjunum í kvöld eingöngu hrósar John McCain, forsetaframbjóðandi repúblíkana, keppinauti sínum, Barack Obama, fyrir „vel unnið verk“ um leið og Obama tekur við útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins.

Obama ávarpar landsþing flokksins í Denver klukkan tvö í nótt að íslenskum tíma, en í dag eru 45 ár liðin síðan Martin Luther King flutti sína frægu ræðu er hann sagði: „Ég á mér draum.“

Í auglýsingunni sem sýnd verður á kapalstöðvum í kvöld ávarpar McCain keppinaut sinn og segir: „Þetta er svo sannarlega góður dagur fyrir Bandaríkin. Of oft fara afrek keppinauta okkar fyrir ofan garð og neðan. Því vil ég staldra við og óska þér til hamingju. Það er einkar viðeigandi að útnefningu þína skuli bera upp á þennan sögulega dag. Á morgun byrjum við aftur, en í kvöld segi ég: Vel gert.“

Obama er fyrsti blökkumaðurinn sem hlýtur útnefningu sem forsetaframbjóðandi annars stóru flokkanna í Bandaríkjunum. Ekkert hefur verið látið uppi um hvað hann muni segja í ræðu sinni í kvöld, en aðstoðarmenn hans segja að hún verði „samtal, augliti til auglitis“ við Bandaríkjamenn um það sem sé í húfi, og þá hættu sem sé því fylgjandi að á ný setjist repúblíkani á forsetastól.

Um 75.000 demókratar eru á landsþinginu í Denver, en að auki munu milljónir manna fylgjast með ræðu Obamas í sjónvarpi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert