Hver er Sarah Palin?

Óhætt er að segja að John McCain hafi komið með allóvænt útspil þegar hann lét berast út að að Sarah Palin, ríkisstjóri í Alaska, yrði varaforsetaefni sitt í forsetakosningunum í nóvember. Ýmsir hafa vafalaust spurt í forundran: Hver er Sarah Palin? og víst er að þeir sem reyndu fyrst eftir að fréttin barst út að heimsækja opinbera vefsíðu hennar urðu lítils vísari - hún hafði einfaldlega lagst á hliðina, slík hefur ásóknin verið.

Engu að síður má sjá á netinu að einhverjir hafa orðað þann möguleika að sniðugt gæti verið fyrir McCain að leita til þessarar stórhuggulegu og bráðrösku fimm barna móður sem stýrir þessu nyrsta ríki Bandaríkjanna og er yfirleitt ekki mikið til umræðu á þeim slóðum þar sem menn véla um völdin.

Þannig getur stjórnmálaskýrandinn, Jack Kelly, strax 4. júní sl, þess á netsíðunni Real Clear Politics að þegar leitað sé að varaforsetaefni eigi þeir sem athyglin beinist að fyrir ýmsa mannkosti, sér líka ýmsar dekkri hliðar sem geti verið tvíbentar þegar út í kosningabaráttuna er komið. Þó sé til eitt mögulegt varaforsetaefni sem eiginlega sé ekkert hægt að setja út á. Og þeir hægrimenn sem til hennar þekkja hafi orðið harla glaðir þegar fréttist að einn helsti aðstoðarmaður McCain,  Arthur Culvahouse, hafi einmitt gert sér ferð til Alaska nýverið, því að þeir gangi út frá því að hann hafi eingöngu verið þar til að ræða varaforsetamál við ríkisstjórann, Söruh Palin.

Sarah Louise Heath Palin er 44 ára að aldri, yngsti ríkisstjórinn í tiltölulega skammri sögu ríkisins og jafnframt fyrsta konan til að gegna því embætti. Hún er jafnframt vinsælasti ríkisstjórinn í Bandaríkjunum, þar sem  nærri 90% kjósenda lýsa yfir ánægju með hana..

Bakgrunnur Palin er um margt einstakur. Hún fluttist kornung með foreldrum sínum til Wasilla í Alaska þar sem faðir hennar bæði kenndi og þjálfaði í frjálsum íþróttum. Fjölskyldan er mikið íþrótta- og útivistarfólk og sagan segir að feðginin hafi stundum vaknað um miðja nótt til að fara á elgsveiðar áður en skóladagurinn byrjaði og að þau hafi hlaupið reglulega 5 og 10 km. hlaup.

Til þess er tekið að þegar hún leiddi körfuboltalið Wasilla menntaskólans í keppni slíkra skóla í ríkinu hafi félagar hennar kallað hana Söruh „barrakúða“ eftir vatnafisknum grimma vegna gífurlegrar keppnishörku.

Skömmu seinna var hún kosin Ungfrú Wasilla í fegurðarsamkeppni heima fyrir, jafnframt vinsælasta stúlkan og varð síðan önnur í úrslitunum um Ungfrú Alaska. Það dugði henni til að hreppa námsdvöl í háskólanum í Idaho, fæðingarríki sínu. Þar lauk hún prófi í blaðamennsku með stjórnmálafræði sem aukafag en starfaði síðan um tíma sem íþróttafréttamaður á sjónvarpsstöð í Anchorage áður en hún sneri sér að stjórnmálum. Hún byrjaði í bæjarstjórnarmálum heima fyrir í Wasilla en fór síðan að láta mikið til sín taka innan Repúblikanaflokksins í Alaska. Hún gerðist ákafur andstæðingur hvers kyns spillingar og lausataka í flokksstarfinu og á endanum skilaði það henni í ríkisstjórastólinn fyrir tveimur árum. Þar nýtur hún meiri hylli en nokkur annar ríkisstjóri í Bandaríkjunum, eins og áður er nefnt.

Hún hefur sitthvað annað til að bera sem mun höfða til þeirra hægri sinnuðustu í flokknum. Í Alaska hefur hún reynst aðhaldssöm í ríkisfjármálum, hún er ævifélagi í samtökum bandarískra byssueigenda enda mikil veiðikona, mjög trúuð sem hún ræktar með því að sækja kirkju reglulega og því harður andstæðingur fóstureyðinga. Þá var elsti sonur hennar, Ted sem er 18 ára, nýverið að skrá sig í herinn, og ekki fer það síður vel í hægra liðið sem aldrei hefur treyst McCain fullkomlega.

Sarah Palin hefur að minnsta kosti hitt einn Íslending svo vitað sé. Það er Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. Þau hittust þegar Ólafur tók við umhverfisverðlaunum Norðurslóða sl. haust og hélt þá einmitt ræðu á fjölmennri alþjóðlegri ráðstefnu ásamt Söruh Palin ríkisstjóra Alaska, jafnframt sem hann átti fund með ýmsum áhrifamönnum Alaskaríkis um jarðhitanýtingu. Ekki er ólíklegt að Palin hafi verið þar í hópi, þótt þess sé ekki getið.

McCain kynnti Palin formlega til leiks á kosningafundi í Ohio …
McCain kynnti Palin formlega til leiks á kosningafundi í Ohio í dag. Reuters
Sarah Palin.
Sarah Palin. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert