Fundin sek um að myrða barn sitt í örbylgjuofni

China Arnold í réttarsal fyrr á þessu ári.
China Arnold í réttarsal fyrr á þessu ári. AP

Kviðdómur í Dayton í Ohio í Bandaríkjunum hefur fundið 28 ára gamla konu, China Arnold, seka um að hafa myrt mánaðargamla dóttur sína með því að setja hana í örbylgjuofn.  Á Arnold nú yfir höfði sér dauðarefsingu en kviðdómur mun ákveða refsinguna í næstu viku.

Arnold var fundin sek um að hafa sett barnið, sem hét Paris Tallery, inn í örbylgjuofn árið 2005 og kveikt síðan á ofninum. Þetta gerðist eftir að Arnold lenti í rifrildi við þáverandi unnusta sinn. Fyrir átti Arnold þrjú börn.

Klefafélagi Arnold í fangelsi bar við réttarhöldin að Arnold hefði játað fyrir sér að hún hefði sett barnið í ofninn og kveikt á honum vegna þess að hún óttaðist að unnustinn myndi yfirgefa hana ef hann kæmist að því að hann var ekki faðir barnsins.

Saksóknarar sögðu, að rannsókn hefði leitt í ljós að erfðaefni úr barninu var í örbylgjuofninum. Verjendur Arnold héldu því hins vegar fram að 8 ára sonur hennar hefði sett barnið í ofninn.

Arnold var ákærð fyrir morð eftir að í ljós kom að barn hennar var með innvortis brunasár, en engin sár utan á líkamanum. Réttað var fyrst yfir henni í byrjun ársins en dómari ómerkti þau réttarhöld og fyrirskipaði ný.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert