Mínútu frá árekstri

Flugvél Delta-flugfélagsins bandaríska.
Flugvél Delta-flugfélagsins bandaríska.

Einungis munaði einni mínútu að tvær farþegaþotur lentu í árekstri í 30 þúsund feta hæð yfir Atlantshafi. Önnur var bandarísk og hin rússnesk. Munu flugmenn beggja hafa sveigt af leið til að forðast árekstur. Rannsókn er hafin á atvikinu.

Frá þessu greinir fréttavefur Sky-sjónvarpsins.

Atvikið átti sér stað norður af Púrertó-Ríkó, en ekki kemur fram í frétt Sky hvenær það varð.

Önnur þotan var frá bandaríska flugfélaginu Delta, en hin frá rússneska félaginu Transaero. 152 voru í bandarísku vélinni en ekki greinir frá því hve margir voru í þeirri rússnesku.

Haft er eftir talsmanni bandaríska samgönguöryggisráðsins að vélarnar hafi verið í sömu hæð, 33.000 fetum, yfir opnu hafi, og verið „sextíu sekúndum frá því að vera á sama stað.“

Fregnir herma að flugstjóri rússnesku vélarinnar hafi lækkað flugið um 300 fet til að forðast árekstur, og flugmaður Delta-vélarinnar sagði að aðvörunarkerfi hafi farið í gang í stjórnklefa þotu sinnar. Hafi hann þá einnig sveigt af leið. Haft er eftir honum að þarna hafi „engu mátt muna.“

Sky hefur eftir bandaríska samgönguöryggisráðinu að engin ratsjá nái yfir opið haf, og halda beri að minnsta kosti 15 mínútna fjarlægð á milli flugvéla við slíkar aðstæður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert