Draugabærinn New Orleans

New Orleans minnir helst á draugabæ
New Orleans minnir helst á draugabæ AP

Borgarstjóri New Orleans biðlaði í dag til allra þeirra sem ekki hafa forðað sér út úr borginni að gera það sem fyrst. Um leið tilkynnti hann um útgöngubann í borginni í nótt og að þeir sem brytu af sér yrðu fangelsaðir. Flestir hafa farið að óskum borgaryfirvalda og minnir borgin helst á draugabæ.

Bendir flest til þess að fellibylurinn Gustav herji á borgina innan sólarhrings og gera borgaryfirvöld allt sem í þeirra valdi stendur til þess að koma í veg fyrir að  óreiðan og öngþveitið sem fylgdi í kjölfar fellibylnum Katrínu fyrir þremur árum endurtaki sig.

„Þjófar verða sendir beint í fangelsi. Þið munið ekki sleppa í þetta skiptið," sagði borgarstjóri New Orleans, Ray Nagin, í dag. Svo virðist sem flestir taki orð borgarstjórans alvarlega og hafi yfirgefið borgina. Hefur umferðarstefnum verið breytt á þann veg að allar leiðir liggja út úr borginni en engin inn í New Orleans og er bíll við bíl á hraðbrautinni. Verslunum, hótelum og veitingastöðum hefur verið lokað og búið að byrgja glugga.

En það eru ekki bara íbúar New Orleans sem hafa flúið heimili sín því talið er að 90% íbúa strandlengju Louisiana ríkis hafi forðað sér og er þetta mesti brottflutningur í sögu ríkisins.

Þjóðvarðliðar fylgjast með á umferðarmiðstöð í New Orleans
Þjóðvarðliðar fylgjast með á umferðarmiðstöð í New Orleans Reuters
Þétt umferð út úr borginni
Þétt umferð út úr borginni AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert