Saka Obama um kvenfyrirlitningu

Barack Obama, forsetaefni demókrata, varðist í gær ásökunum um að hann hefði orðið ber að kvenfyrirlitningu með því að líkja loforðum forsetaefnis repúblikana um breytingar við það að setja „varalit á svín“.

Stuðningsmenn Johns McCains, forsetaefnis repúblikana, sögðu að orðavalið væri til marks um kvenfyrirlitningu vegna þess að með ummælunum væri Obama að sneiða að Söruh Palin, varaforsetaefni repúblikana.

Repúblikaninn Jane Swift, fyrrverandi ríkisstjóri Massachusetts, sagði að Obama hefði gerst sekur um „svívirðileg ummæli, með því að líkja varaforsetaefni okkar, Palin ríkisstjóra, við svín“

Á landsfundi repúblikana hafði Palin sagt í gríni að eini munurinn á „íshokkímömmu“ eins og henni og bola væri „varaliturinn“. Obama notaði sama orð þegar hann hæddist að loforðum McCains um breytingar eftir að hafa setið í öldungadeild Bandaríkjaþings í 25 ár og eftir átta ára valdatíð repúblikana í Hvíta húsinu.

„Þetta sama fólk hefur verið við völd í átta ár,“ sagði Obama á kosningafundi í Virginíu í gær. „Menn geta sett varalit á svín. Það er samt enn svín.“

Aðstoðarmenn Obama neituðu því að orðalagið væri til marks um kvenfyrirlitningu og sögðu að þetta væri orðtak sem hefði oft verið notað.

Barack Obama
Barack Obama Reuters
Sarah Palin
Sarah Palin
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert