3000 börn eiga um sárt að binda eftir hryðjuverkárásina 11. september

Reyk leggur frá turnum World Trade Center í New York …
Reyk leggur frá turnum World Trade Center í New York skömmu eftir árásirnar 11. september 2001. AP

Hin árlega upprifjun á hryðjuverkaárásinni 11. september 2001 vekur upp sterkar tilfinningar hjá afkomendum þeirra, sem fórust í árásunum, iðulega sambland af reiði og sorg. „Þeir eru að sýna mér dauða föður míns og það er meiðandi,“segir Erik Abrahamson, en faðir hans William, starfaði á skrifstofu í öðrum turni World Trade Center þegar árásin var gerð. Erik var þá 11 ára að aldri.

„Þú getur ekki flúið frá þessu, sama hvert þú ferð þá er þetta allsstaðar, “ segir Amy Gardner, 16 ára, en faðir hennar var einn af 343 slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum sem létu lífið við skyldustörf sín þennan dag.

Brielle Saracini, nú 17 ára, finnst verst að myndin af föður hennar er smám saman að mást út í minningunni, en hann var flugstjóri Boeing 767 þotu United Airlines, sem rænt var og flogið á syðri turninn. „Ég man hins vegar röddina hans vegna þess að hún er enn í talhólfinu hans. - Hæ, þetta er Viktor, Ég hef samband um leið og ég get," segir hann þar.

„Stundum mislíkar mér að hann hefur ekki samband. Það hefur tekið mig öll þessi ár að horfast í augu við þetta,“segir hún í viðtali sem bandaríski fréttaþátturinn 60 mínútur átti við hana, Eirik og Amy um afkomendur fórnarlamba hryðjuverkaárásarinnar.

Nærri 3 þúsund börn undir 18 ára aldri misstu foreldra í hryðjuverkaárásinni. Meðalaldur barna fórnarlambanna þegar tvíburaturnarnir hrundu var 9 ár en sum voru ungabörn (jafnvel enn í móðurkviði). Í kjölfar hörmungana spratt upp fjöldi stofnana sem buðu syrgjandi börnunum margs konar aðstoð, allt frá áfallahjálp, tónlistarnámskeiðum, sumarbúðum, listþerapíu til skólastyrkja. En núna sjö árum síðar virðist sem 11. september-dofinn sé staðreynd, fjármagn til margra þessara styrktarverkefna er á þrotum ásamt samúð vina og fjölskyldu, að því er segir í grein The Times um börn fórnarlambanna.

Drengir átt erfitt með að höndla sorgina

Samkvæmt upplýsingum líknarsamtakanna Tuesday's Children, sem veitt hefur yfir 5000 fjölskyldum stuðning frá þessum atburðum 2001, er það fyrst núna sem sum börnin eru farin að geta horfst í augum við foreldramissinn. „Í ár hafa sum þeirra getað tjáð sig um þetta í fyrsta skipti, “ er haft eftir einum starfsmanninum, Terry Grace Sears. „Sérstaklega hafa drengirnir átt erfitt með að höndla sorgina.“

Sears segir að sum barnanna hafi verið of ung til að skynja missi sinn, en öðrum sem eldri voru hafi fundist sem þau yrðu að vera sterk gagnvart eftirlifandi foreldra og því bælt sorgina. Nú þurfi þau stuðning ekki síður en áður - því eftir því sem árin líði þurfi börnin að takast á við að foreldrar hefji nýtt líf, giftist aftur og stofni stjúpfjölskyldur. Í öðrum tilfellum hefur sorgin aðskilið fjölskyldur og foreldrar fórnarlambandanna, afinn og amman, jafnvel misst tengslin við barnabörnin.

Varla kemur á óvart að rannsóknir gefa til kynna að geðrænir kvillar eru helmingi algengari hjá börnum fórnarlamba hryðjuverkanna heldur en meðaltalið segir til um. Og með hverju árinu sem líður finnst fjölskyldum fórnarlambanna stuðningurinn frá ættingjum fara dvínandi og óbeinu skilaboðin ótvíræð: Lífið verður að halda áfram.

Hryðjuverkaárásin

Í hryðjuverkaárásinni að morgni 11. september 2001 var fjórum farþegaþotum rænt, tveimur þeirra flogið á tvíburaturnana í New York, einni á varnarmálaráðuneytið í Pentagon í Washington en sú fjórða skall til jarðar í Pennsylvanía eftir að áhöfn og farþegar reyndu að yfirbuga árásarmennina og fórust allir um borð.

Auk árásarmannanna 19 fórust alls 2.974 í árásinni. Annarra 24 er saknað og eru taldir af. Mikill meirihluti fórnarlambanna voru almennir borgarar og voru af alls 90 mismunandi þjóðernum.

Farþegaflugvélum flogið á World Trade Center í New York 11. …
Farþegaflugvélum flogið á World Trade Center í New York 11. september 2001. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert