Palin vill ekki útiloka stríð við Rússa

Charles Gibson ræðir við Söruh Palin í sjónvarpssal.
Charles Gibson ræðir við Söruh Palin í sjónvarpssal. Reuters

Sarah Palin, varaforsetaefni bandaríska Repúblikanaflokksins, vildi ekki útiloka stríð við Rússa ef þeir gerðu innrás í Georgíu eftir að síðarnefnda landið hefði gengið í NATO. 

„Við munum ekki endurtaka kalt stríð," sagði Palin í sjónvarpsviðtali við ABC sjónvarpsstöðina.

Palin sagðist styðja aðild Georgíu og Úkraínu að NATO þrátt fyrir andstöðu rússneskra stjórnvalda. Þegar Charles Gibson, fréttamaður, spurði Palin hvort Bandaríkin myndu fara í stríð við Rússa ef þeir réðust inn í Georgíu og Georgía væri komið í NATO, svaraði hún: Hugsanlega.

„Það gildir það samkomulag, ef þú átt aðild að NATO, að ef ráðist er á annað aðildarríki þá er ætlast til að þú bregðist við og komir til aðstoðar," sagði hún.

Þegar Gibson gekk á hana sagði Palin: „Ég tel að við verðum að vera á varðbergi gegn því ef stór ríki ráðast inn í minni lýðræðisríki... Við verðum að sýna stuðning, Georgíu í þessu tilfelli. Við getum sýnt þann stuðning hugsanlega með efnahagsþvingunum gagvart Rússum."

Hún bætti við: „Það þarf ekki að leiða til stríðs og það þarf ekki að leiða til kalds stríðs, heldur efnahagsþvingana, diplómatískra þvingunaraðgerða, og að við reiðum okkur á bandalagsríki okkar við að aðstoða okkur við verkefnið, að gæta Rússa og Pútíns og löngunar hans til að ráða og ráða yfir mun smærri lýðræðisríkjum."

Vladímír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, sagði í viðtali í dag að Rússar hefðu engin áform um að brjóta gegn fullveldi Georgíu í kjölfar stríðsátakanna þar. 

Palin sagðist í viðtalinu ekki hafa hikað þegar John McCain bað hana að vera varaforsetaefni sitt. Hún sagðist aðspurð vera tilbúin til að axla þá ábyrgð sem varaforsetaembættinu fylgdi og einnig forsetaembættinu ef eitthvað kæmi fyrir McCain.

„20. janúar, þegar John McCain og ég vinnum embættiseið, ef við verðum kjörin til að þjóna landinu, þá er ég reiðubúin." 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert