Áhrif Ike enn óljós

 Fellibylurinn Ike nálgast nú strönd Texas í Bandaríkjunum en hann gekk yfir strandrifið Galveston í nótt. Ekki liggur enn fyrir hversu miklu tjóni fellibylurinn olli á Galveston en þó er óttast að það sé gífurlegt. Miklar rigningar með flóðum og rafmagnsleysi boðuðu komu Ike við strönd Texas í nótt.

„Stór huti Galveston er undir vatni og það loga nokkrir eldar á svæðinu," segir á vefsíðu almannavarna staðarins. „Margir vegir eru lokaðir vegna flóða og braks sem liggur á vegum.

Of hættulegt er talið að senda björgunarsveitir út sem stendur og segir Andrew Barrow talsmaður Rick Perry ríkisstjóri Texas að ástandið muni því fyrst skýrast er birtir. „Hinn bitri sannleikur er sá að í birtingu þurfum við að setja okkar fólk í þá hættulegu aðstöðu að fara út og leita fólks sem ekki tók skynsamlega ákvörðun. Við munum sennilega fara í stærstu og umfangmestu leitaraðgerð sem gerð hefur verið í Texasríki."

4.5 milljónir manna í Houston og nágrenni eru rafmagnslausir og mikil rigning og hvassviðri er nú á Johnson Space Center svæðinu borgarinnar þar sem Bill White borgarstjóri gekk á milli húsa í gærmorgun og reyndi að telja fólk á að yfirgefa heimili sín. Síðar um daginn var fólk beðið um að halda kyrru fyrir heima hjá sér þar sem of hættulegt væri talið að vera á ferli.

Talið er að 1,2 milljónir manna hafi farið af svæðinu í gær en í búar Houston og nágrennis eru um fimm milljónir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert