Fórnarlömbum Ike fjölgar

Fjöldi íbúa Galveston hafa haldið heim á leið í dag …
Fjöldi íbúa Galveston hafa haldið heim á leið í dag og þar með tafið störf björgunarsveita AP

Yfir fimmtíu manns létust í Bandaríkjunum þegar fellibylurinn Ike reið yfir. Fjöldi björgunarmanna er nú að störfum á eyjunni Galveston fyrir utan Texas en erfiðlega hefur gengið fyrir björgunarmenn að komast þangað þar sem fjöldi íbúa Galveston reynir að komast til síns heima á ný þrátt fyrir að hafa verið skipað að halda sig fjarri staðnum.

Segja yfirmenn samgöngumála í Texas að ringulreiðin skýrist meðal annars af ákvörðun bæjaryfirvalda í Galveston að heimila íbúum að koma heim aftur og kanna hvort eignir þeirra væru óskemmdar. Var sú ákvörðun dregin til baka en svo virðist sem það hafi farið fram hjá mörgum íbúanna.

Í Houston eru flestir íbúanna enn án rafmagns fimmta daginn í röð og því hefur það reynst þrautin þyngri fyrir íbúa að fá upplýsingar um hvar þeir geti nálgast nauðsynlegar vistir. Ekki er gert ráð fyrir að rafmagn komist á í Houston, fjórðu stærstu borg Bandaríkjanna, fyrr en eftir nokkra daga.

Samkvæmt opinberum tölum er 51 látinn í Bandaríkjunum en líklegt þykir að talan eigi enn eftir að hækka. Ike hafði áður en hann reið yfir Bandaríkin kostað yfir áttatíu lífið í á eyjum í Karbíahafi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert