Davíðsstyttan í hættu

Michelangelo skapaði David á árunum 1501-1504
Michelangelo skapaði David á árunum 1501-1504

Davíðsstyttan fræga eftir Michelangelo gæti fallið af stalli sínum í Flórens vegna ágangs ferðamanna, að mati sérfræðinga við Perugia háskóla á Ítalíu. Þúsundir ferðamanna þramma á degi hverjum framhjá stríðsmanninum nakta sem felldi Golíat og hafa sérfræðingar áhyggjur af því að ef ekki verði gripið til aðgerða muni titringurinn sem því fylgir valda því að styttan hreinlega hrynji.

Styttan, sem höggvin er í marmara, er 504 ára og hefur látið nokkuð á sjá. Fyrir fjórum árum var farið í viðgerðir á henni þar sem marmarinn var styrktur og fyllt upp í sprungur, en þær hafa nú opnast á nýjan leik.

Styttan, sem er með þekktustu verkum endurreisnartímans, var upphaflega staðsett á opnu torgi fyrir framan Palazzo Vecchio, aðsetur ríkisstjórnarinnar í Flórens, en flutt á Galleri dell'Accademia safnið henni til verndar árið 1873.

Verði ráðist í fyrirbyggjandi aðgerðir nú gæti kostnaður verið allt að milljón evrur, u.þ.. 132 milljónir íslenskra króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert