Tengsl milli fjöldamorðanna

Finnska lögreglan rannsakar nú hvort tengsl hafi verið á milli Matti Juhani Saari, sem gekk berserksgang í skóla sínum fyrr í vikunni og myrti tíu samnemendur sína og Pekka-Eric Auvinen, sem myrti átta í Jokela á síðasta ári. Báðir tóku þeir eigið líf eftir skotárásirnar.

Matti Juhani Saari,  22 ára og Pekka-Eric Auvinen, 18 ára, keyptu báðir skotvopnin í Jokela og jafnvel í sömu búð. Eins er talið að þeir hafi átt samskipti sín á milli.

„Hegðun þeirra er svo svipuð að ég teldi það kraftaverk ef við finnum ekki einhverja tenginu þeirra á milli," segir Jari Neulaniemi, sem stýrir rannsókninni, í samtali við finnsku fréttastofuna STT.

Hann segir að byssuleyfin sýni fram á að byssurnar voru keyptar í sömu verslun í Jokela en neitaði að skýra málið frekar.

Á fréttavef BBC kemur fram að margt sé líkt með fjöldamorðunum. Báðir birtu þeir ógnandi myndskeið á YouTube fyrir árásirnar og þeir voru báðir heillaðir af fjöldamorðunum í Columbine skólanum í Bandaríkjunum árið 1999. Eins er sjálfsvígsaðferðin sú sama hjá báðum, skot í höfuðið. Hins vegar hefur ekki enn tekist að finna beina tengingu milli mannanna tveggja.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert