Sjö dæmd fyrir morðtilraun

Sjö manns voru dæmd fyrir morðtilraun eftir að hafa misþyrmt 36 ára konu hrottalega í grennd við bæinn Mors á Jótlandi í fyrra. Konan fannst meðvitundarlaus og nakin á sveitavegi og síðar kom í ljós að sjömenningarnir höfðu valdið henni varanlegum heilaskaða.

Sjömenningarnir eru á aldrinum 17 til 45 ára og voru í morgun dæmdir sekir um morðtilraun í héraðsdómi í Viborg en refsing þeirra verður kunngjörð á mánudaginn kemur.

Konan fannst á malarvegi í september í fyrra. Var hún vart með lífsmarki og samkvæmt Berlingske Tidende var líkamshiti hennar kominn niður í 27 gráður er hún fannst.

Sjömenningarnir og fórnarlamb þeirra munu öll vera atvinnulausir fíkniefnaneytendur á framfæri bæjarfélagsins.

Konan sem lifði árásina af er í dag vistuð á elliheimili á Jótlandi. Hún getur ekki matast án aðstoðar og getur ekki tjáð sig eða haft nein samskipti við fólk og segja læknar ólíklegt að hún muni nokkurn tímann jafna sig til fulls.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert