Öldungadeildin samþykkti

Meirihluti þingmanna í bandarísku öldungadeildinni samþykkti í nótt nýja útgáfu af frumvarpi um 700 milljarða dala aðstoð ríkisvaldsins við fjármálafyrirtæki. Alls sögðu 74 já en 25 nei. Væntanlega mun fulltrúadeildin greiða atkvæði um frumvarpið á morgun en hún felldi það á mánudag.

Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu frá því það var fellt í fulltrúadeildinni á mánudag. Meðal annars fá fjölskyldur og fyrirtæki skattaívilnanir.

Fréttaskýrendur segja að vísbendingar séu um að andstaða við frumvarpið fari minnkandi í fulltrúadeildinni, þar sem sífellt fleiri þingmenn repúblíkana séu reiðubúnir að samþykkja það.

Andstaðan við björgunaraðgerðirnar á sér þær rætur helstar, að íhaldssamir repúblíkanar vilja ekki að ríkisvaldið grípi inn í markaðinn með þessum hætti, en demókratar á hinum vængnum telja aðgerðirnar aðeins miða að því að bjarga ofurríkum bankamönnum.

„Þessir stjórsnjöllu Wall Street-menn, sem hafa grætt meiri peninga en venjulegir Bandaríkjamenn geta svo mikið sem látið sig dreyma um,  hafa farið með fjármálakerfið okkar út á ystu nöf,“ sagði óháður öldungadeildarþingmaður, og að nú krefjist Wall Street-mennirnir þess að bandarískt millistéttarfólk kæmi þeim til bjargar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert