Palin fellur í áliti

Sarah Palin með John McCain, forsetaefni bandarískra repúblíkana.
Sarah Palin með John McCain, forsetaefni bandarískra repúblíkana. AP

Mjög hefur dregið úr vinsældum Söru Palin, varaforsetaefnis repúblíkana, samkvæmt nýrri könnun Washington Post og ABC fréttastofunnar. Svo mjög hefur hún fallið í áliti að nú er talið að hún muni draga úr möguleikum John McCains á að ná kjöri sem forseti Bandaríkjanna.

Val McCains á Palin kom flestum í opna skjöldu og fyrst í stað virtist sem Palin, sem er önnur konan til að vera valin sem varaforsetaefni stóru flokkanna í Bandaríkjunum, myndi styrkja mjög framboð McCains. Fyrir um mánuði sýndu kannanir að fólk hafði jafnmikið álit á henni á McCain og Barack Obama og hún setti óneittanlega aukinn kraft í kosningabaráttu McCains. Nú, nokkrum klaufalegum ummælum og misheppnuðum sjónvarpsviðtölum síðar, er glansinn að fara af.

Samkvæmt könnun Washington Post og ABC telja sex af hverjum tíu Bandaríkjamönnum að Palin skorti reynslu til að gegna forsetaembættinu. Þetta er merkileg niðurstaða, ekki síst í ljósi þess að um helmingur Bandaríkjamanna hefur áhyggjur af háum aldri McCains. Um þriðjungur þeirra sem svöruðu könnun Washington Post og ABC sögðu að það væri ólíklegra að þeir myndu kjósa McCain vegna þess að Palin er varaforsetaefni hans. Þá hefur stuðningur við hana meðal óháðra kjósenda mjög dregist saman

Í frétt Washington Post er jafnframt bent á að samkvæmt nýrri könnun Pew Research Center sagðist þriðjungur fullorðinna hafa fylgst mjög vel með viðtölum sem Katie Couric tók við Palin og birt voru á CBS sjónvarpsstöðinni.  Palin kom illa fyrir í þessum viðtölum og var jafnvel gagnrýnd af íhaldssömum pistlahöfundum, mönnum sem að öllu jöfnu styðja repúblíkanaflokkinn.

Könnunin hlýtur að vera töluvert áfall fyrir Palin og því enn mikilvægara en ella fyrir hana að standa sig vel í kappræðum við Joe Biden, varaforsetaefni demókrata. Kappræðurnar fara fram í kvöld, klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert