Umdeild móðir sökuð um vanrækslu

Hin breska Fiona MacKeown, móðir unglingsstúlku sem talið er að hafi verið byrlað ólyfjan áður en henni var nauðgað og hún síðan myrt á strönd á Goa á Indlandi hefur fengið boð um að mæta fyrir rétt á Indlandi vegna ásakana um vanrækslu.

Sky fréttastofan segir að móðir stúlkunnar, Scarlett Keeling sem var 15 ára er hún lést telji hins vegar að yfirvöld á Indlandi hafi ítrekað reynt að hylma yfir morðið á dóttur sinni og reynt að láta líta út fyrir að stúlkan hafi tekið fíkniefni og síðan drukknað fyrir slysni í kjölfarið.

Fiona MacKeown sem er 43 ára á að mæta fyrir rétt þann 15. október en lögfræðingur hennar segir að hún muni ekki mæta þar sem ásakanirnar séu úr lofti gripnar.

Scarlett mun hafa verið í umsjá 25 ára fararstjóra, sem einnig var kærasti hennar, er hún lést en móðir hennar skildi hana eftir í Goa á meðan hún hélt áfram ferð sinni um Indland með sex öðrum börnum sínum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert