Talibanar myrtu tugi manna í Afganistan

Herskáir talibanar myrtu að minnsta kosti 31 óbreyttan borgara í Afganistan í síðustu viku, að sögn þarlendra stjórnvalda. Vígamenn stöðvuðu rútu, sem var á ferð í Kandaharhéraði í suðurhluta landsins. Um 50 manns voru í rútunni og var hluta þeirra sleppt.

Talsmaður talibana staðfesti við AP fréttastofuna að árás hefði verið gerð á rútuna en sagði að 27 afganskir hermenn í rútunni hefðu verið drepnir.

Mohammad Zahir Azimi, hershöfðingi og talsmaður afganska varnarmálaráðuneytisins, sagði að 31 hefði verið myrtur. Sex hinna látnu hefðu verið hálshöggnir. Matiullah Khan, lögreglustjóri í héraðinu, sagðist hins vegar hafa upplýsingar um að 40 manns hefðu látið lífið.

Azimi vísaði því á bug að hermenn hefðu verið í rútunni enda ferðist hermenn í bílalestum, ekki í venjulegum rútum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert