Aznar undrast fjáraustur í barráttu gegn loftslagsbreytingum

Jose Maria Aznar
Jose Maria Aznar AP

Jose Maria Aznar, fyrrverandi forsætisráðherra Spánar líkir talsmönnum baráttu gegn hnattrænni hlýnun við bókstafstrúarmenn. Aznar sagðist í dag ekki afneita hnattrænni hlýnun. Hann setti hins vegar stórt spuningamerki við alla þá fjármuni sem varið væri í baráttu gegn hnattrænni hlýnun á tímum heimskreppu.

Jose Maria Aznar vék að þessu í ávarpi sem hann flutti í dag við kynningu á nýrri bók Vaclav Klaus, forseta Tékklands en fyrirtæki Aznar gefur bókina út. Vaclav Klaus hefur, líkt og Aznar, dregið í efa staðhæfingar vísindamanna um að hnattræn hlýnun hafi náð hættumörkum.

Jose Maria Aznar er efins um trúverðugleika þeirra fyrirmenna sem hafa haft sig hvað mest í frammi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. „Fullyrðingar þeirra um hálfgerð ragnarök eiga lítið skylt við vísindi. Þetta ber keim af trúarbrögðum, þar sem þeim sem andmæla fullyrðingum, spám og viðvörunum spámannanna, er fórnað.“

Aznar sem sat á stóli forsætisráðherra á Spáni frá 1996 til 2004 hefur þráfaldlega vakið hneykslan og undrun með ummælum sínum. Í fyrra hneykslaði hann marga þegar hann taldi það sjálfsagðan rétt einstaklinga að aka undir áhrifum áfengis. Fyrir tveimur árum reitti hann Múslíma til reiði þegar hann sagði ósanngjarnt af þeim að heimta afsökunarbeiðni af Benedikt páfa 16. fyrir ummæli sem sögð voru smána íslam. Aznar benti múslímum þá á að þeir hefðu sjálfir ekki enn séð ástæðu til að biðjast afsökunar á 800 ára hersetu Mára og síðar múslímskra Berba á Spáni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert