Klónuðu mús úr frosnum erfðaefnum

Japönskum vísindamönnum hefur tekist að klóna mús með erfðaefni úr músum sem hafa legið frosnar í sextán ár. Erfðaefni voru tekin úr heila músa sem legið höfðu í 20 gráðu frosti. Hingað til hafa sérfræðingar aðeins talið mögulegt að nota erfðaefni úr lifandi verum og flytja þau í egg annarra lífvera.

Sú aðferð sem notuð hefur verið allt frá því ærin Dollý var klónuð árið 1996, byggist á því að kjarni er fjarlægður úr eggfrumu og öðrum frumukjarna sprautað í egg og hann örvaður með lyfjum eða rafskautum. Síðan hefur vísindamönnum tekist að einrækta mýs, nautgripi, geitur og svín. En ætíð hefur verið notast við lifandi verur.

Vísindamenn í Kobe í Japan telja ekki útilokað að mögulegt sé að nýta þessa tækni til að klóna löngu útdauðar tegundir, eins og mammúta. Þeir hafa verið útdauðir í 40 þúsund ár. Sá hængur er þó á að erfitt gæti reynst að finna egg við hæfi og „staðgöngumæður“ til að ljúka klónunarferlinu þegar um löngu útdauðar tegundir er að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert