Bretar lána 800 milljónir punda vegna Icesave

Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands
Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands Reuters

Bresk stjórnvöld hafa ákveðið að lána 800 milljónir Sterlingspunda vegna Icesave-reikninga breskra sparifjáreigenda. Alistair Darling fjármálaráðherra Breta staðfesti í yfirlýsingu að fjármunirnir verði lánaðir í Tryggingasjóð innlána.

Innistæðueigendum hefur verið sent bréf þar sem útskýrt er hvernig greiðslum úr Icesave verður hagað. Tryggingasjóðurinn ábyrgist alla jafna innistæður upp að 50 Þúsund Sterlingspundum en ákveðið hefur verið að allar innistæður verði tryggðar. Bresk stjórnvöld hyggjast sækja peningana síðar til Íslendinga.

Um það bil 300 þúsund Bretar áttu Icesave-reikninga hjá Landsbankanum og nema innistæður um fjórum milljörðum Sterlingspunda.

Fjármálaeftirlitið tók 6. október yfir stjórn Landsbankans og daginn eftir var Icesave-reikningunum lokað. Bresk stjórnvöld beittu svo lögum um varnir gegn hryðjuverkum þegar þau ákváðu, 8. október að frysta eignir Landsbankans á Bretlandseyjum vegna greiðsluþrots Icesave. Síðan hafa íslensk og bresk stjórnvöld deilt um ábyrgð á innistæðum breskra sparifjáreigenda hjá Icesave.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert