Obama byrjaður að raða í embætti

Rahm Emanuel ásamt Barack Obama fyrr á þessu ári.
Rahm Emanuel ásamt Barack Obama fyrr á þessu ári. AP

Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, er byrjaður að mynda næstu ríkisstjórn landsins, en hann hefur beðið Rahm Emanuel um að taka að sér embætti starfsmannastjóra Hvíta hússins. Emanuel er fyrrverandi ráðgjafi Bill Clintons, fyrrum Bandaríkjaforseta.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að búist sé við því að Obama muni næst stefna á það að útnefna nýjan fjármálaráðherra, sem er ætlað það stóra verkefni að takast á við fjármálakreppuna og efnahagsmálin.

Obama verður að vera búinn að raða í æðstu embættin áður en hann sver embættiseið sem 44. forseti Bandaríkjanna þann 20. janúar nk.

Engin formleg tilkynning hefur borist úr herbúðum Obama frá því hann var kjörinn forseti sl. þriðjudag. Það er hins vegar búist við því að hann muni ræða við fjölmiðla í vikulok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert